Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

Hvað er að frétta?

Nú hefur þátttökustöðum fjölgað mikið síðan síðasta fréttabréf kom út og við erum að nálgast 200 þátttökustaði. Þeir starfsstaðir sem hafa komið inn í Grænu skrefin í október eru:


Borgarbókasafnið í Úlfarsárdal; Félagsmiðstöðin Borgir; Garðyrkja-verkbækistöð 2 við Rafstöðvarveg; Frístundamiðstöðvarnar Tjörn og Kringlumýri; Félagsstarf aldraðra Norðurbrún 1; Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts; Frístundaheimilin Frostheimar, Neðstaland, Halastjarnan, Gulahlíð, Selið, Laugarsel, Vogasel, Dalheimar og Undraland; Barnavernd Reykjavíkur; Leikskólarnir Miðborg, Nóaborg, Brekkuborg, Grandaborg, Tjörn og Garðaborg; Félagsmiðstöðvarnar Hekla, Hellirinn, 100og1, Þróttheimar, Laugó og Bústaðir; Íbúðakjarnarnir Þórðarsveig 1 og 3, Hátúni 6, Laugavegi 67a, Mururima 4, Byggðarenda 6 og Bríetartúni 26 og 30.


Fjórir vinnustaðir fengu viðurkenningu í okóber og það voru:

Ræktunarstöð Reykjavíkur - 1. skrefið

Hverfastöðin Vestur, Fiskislóð - 4. skrefið

Borgarbókasafnið Kringlunni - 4. skrefið

Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða - 4. skrefið


Á 10 ára afmælishátíð Grænna skrefa fengu þeir vinnustaðir sem höfðu lokið 4. skrefinu á þessu ári sérstaka viðurkenningu frá borgarstjóra. Sjá má mynd af því auk fleiri mynda frá vel heppnuðum afmælisviðburði í Ráðhúsinu þann 13. október sl. hér fyrir neðan. Á afmælishátíðinni var boðið upp á erindi frá Sorpu, Andrými og Eflu auk uppistands frá Ara Eldjárn og mæltist það mjög vel fyrir. Veitingarnar í umsjá Dóru Svavarsdóttur hjá Culina, voru úr matvörum sem annars átti að farga. Hún fær afganga sem ekki seljast, eða eru komnar á síðasta séns og býr til úr því dýrindis mat.

Evrópsk nýtnivika

Evrópsk nýtnivika, eða European Week for Waste Reduction (https://ewwr.eu) verður 20. - 28. nóvember næstkomandi. Í þeirri viku er lögð áhersla á að draga úr úrgangi eins og hægt er með því að endurnýta hluti, nýta betur, koma hlutum í réttan farveg í endurvinnslu, og minnka sóun. Undanfarin ár hefur verið haldið upp á þessa viku með ýmsum hætti vegna þess að á hverju ári er nýtt þema. Eitt árið var þemað spilliefni, og þá gekk Spilliefnavagninn um götur borgarinnar og safnaði spilliefnum frá heimilum. Það hafa verið fyrirlestrar og reddingakaffi (til að gera við smáhluti) og í fyrra bauð Umhverfisstofnun upp á 3 fyrirlestra í beinu streymi á Facebook.


Í ár er þemað Hringrásarsamfélög (Circular communities). Við höldum hlutum í ákveðinni hringrás í stað þess að henda þeim strax eftir notkun. Góð dæmi um þetta eru fatamarkaðir eins og Barnaloppan, Verzlanahöllin og Hringekjan. Fataleigan Spjara.is er nýjasta nýsköpunin, þar sem þú leigir fötin í stað þess að eiga þau.

Græn skref Reykjavíkurborgar hvetja alla vinnustaði til þess að gera eitthvað skemmtilegt í tilefni Nýtnivikunnar. Það getur verið að setja upp fataslá á vinnustaðnum, þar sem fólk kemur með föt sem það vill losa sig við og einhver annar getur nýtt sér. Setja upp skiptimarkað með ýmiss konar dót sem gæti nýst sem gjafir í skóinn eða aukajólagjöf frá jólasveininum eða eitthvað slíkt. Einnig er gott að deila skrauti eftir veislur, skraut er oft bara notað einu sinni í veislum (fermingum, stórafmælum, brúðkaupum) og er fullkomlega brúklegt í fleiri veislur. Ýmsar Facebook síður eru til þar sem hægt er að auglýsa sitt skraut / hluti eða óska eftir hlutum. Til dæmis hópur um endurnýtingu á skrauti; hópur fyrir notaðan skíðabúnað og svo Heimaendurvinnsluhópurinn. Það eru örugglega fjölmargir aðrir deilihópar.


Ef það verða spennandi viðburðir í Nýtnivikunni mun ég deila þeim í Workplace hópi Grænna skrefa. Annars eru hér 2 viðburðir sem er vert að vekja athygli á:

- https://fb.me/e/1hsWP3V7v Er séns að vera umhverfisvænn á degi einhleypra? Þetta er einn stærsti verslunardagurinn. Getum við verið sjálfbær og dregið úr neyslunni?

- https://fraedslutorg.reykjavik.is/v2/#book/location/9/category/19/count/1/provider/any/ Græn skref í daglegu amstri. Hér verður farið yfir öll þau skref, stór og smá, sem við getum tekið í okkar annasama lífi til að verða aðeins umhverfisvænni.

FRÆÐSLA Í BOÐI

Kynningarglærur um Grænu skrefin til eigin afnota.

Ef þú vilt kynna Grænu skrefin betur fyrir starfsfólk og samstarfsfélaga þá er glærupakki á heimasíðu Grænna skrefa sem allir geta notað að vild. Sjá hér: https://graenskref.reykjavik.is/forsida/glaerur/

Fundur fyrir tengiliði Grænna skrefa

Allir þátttökustaðir í Grænu skrefunum geta sent einn eða fleiri tengiliði á fundinn, eða tengiliður / starfsmaður sem vinnur að Grænu skrefunum getur sjálfur skráð sig á fundinn. Fundurinn er ætlaður þátttakendum í Grænu skrefunum sem hafa komið innleiðingunni af stað og vilja spyrja spurninga eða spjalla við aðra í sömu sporum. Á fundinum segjum við reynslusögur, spyrjum spurninga og fáum svör og ráðleggingar.

Hvar: Fjarfundur á Webex. Skráning er nauðsynleg og tengill verður sendur á þá sem skrá sig hjá Grænum skrefum.

Næsti fundur verður: Fimmtudaginn 25. nóvember kl. 09:00 - 10:00

Hvernig fræðslu vilt þú fá á þinn vinnustað?

Viltu fræðslu á þinn vinnustað um Grænu skrefin eða eitthvað því tengt?

  • Almenna kynningu á Grænu skrefunum (styttri eða lengri)?
  • Fræðslu um vistvæn innkaup?
  • Fræðslu um grænt bókhald?
  • Fræðslu um flokkun og úrgangsmál?
  • Eða eitthvað annað umhverfistengt sem þér dettur í hug?


Hugsaðu málið og sendu okkur línu á graenskref@reykjavik.is til að spyrja um fræðslumál.