Flataskólafréttir

Skólaárið 2020-2021 - 5. apríl 2021

Kæra skólasamfélag!

Enn á ný setti faraldurinn strik í reikninginn hjá okkur núna fyrir páskafríið og við verðum að nýju að laga okkur að sóttvarnatakmörkunum. Sem betur fer getur skólastarfið þó hafist að nýju með nokkuð eðlilegum hætti en við stígum eitt skref til baka og tökum upp svipað fyrirkomulag og var fyrir vetrarfrí. Það hefur takmarkandi áhrif á morgunsamverur og fyrirkomulag í matsal en að öðru leyti getur líf nemenda hins vegar gengið sinn vanagang og skólatími nemenda verður að fullu samkvæmt stundaskrá. Við höldum því áfram að þræða okkur í gegnum skólaárið og vonum að spennandi viðburðir í aprílmánuði eins og hin stórskemmtilega Flatóvisjón keppni og Vatnaskógarferð 7. bekkjar geti farið fram samkvæmt áætlun. Og svo vonum við jafnframt að það vori jafnt og þétt samkvæmt áætlun og óskum nemendum og forráðamönnum gleðilegra páska!

Með bestu kveðjum úr skólanum!

Ágúst skólastjóri

ATHUGIÐ - mæting grunnskólanemenda að loknu páskaleyfi er kl. 10:00 þriðjudaginn 6. apríl

Helstu viðburðir framundan

  • 6. apríl - Fyrsti kennsludagur eftir páskafrí - mæting hjá grunnskólanemendum kl. 10:00. Leikskóladeildin opnar á venjulegum tíma.
  • 21. apríl - Árshátíð 7. bekkjar
  • 21. apríl - Flatóvisjón
  • 22. apríl - Sumardagurinn fyrsti - frí
  • 26.-28. apríl - 7. bekkur í Vatnaskógi
  • 13. maí - Uppstigningardagur - frí
  • 14. maí - Skiladagur í ljóðasamkeppni Flataskóla

Takmarkanir á aðgengi forráðamanna að skólahúsnæði

Við minnum á tilmæli frá almannavörnum um að til að draga úr smithættu, þá komi foreldrar, (eða aðrir fullorðnir) ekki inn í skóla barna sinna nema í brýnni nauðsyn og þá sé smitgát viðhöfð og notaðar andlitsgrímur.

Við biðjum um að foreldrar sem eiga erindi í skólann byrji á því að gefa sig fram á skrifstofu skólans.

Stóra upplestrarkeppnin

Árlegur viðburður í starfi 7. bekkjar er þátttaka í "Stóru upplestrarkeppninni" en í því verkefni æfa nemendur sig að lesa upphátt og þjálfa framburð og blæbrigði í upplestrinum. Markmiðið með þessu er auk þjálfunarinnar að auka áhuga á lestri og gera honum hátt undir höfði í skólastarfinu. Krakkarnir eru semsagt búin að vera að æfa sig í vetur og hver bekkur valdi svo sína fulltrúa til að keppa á lokahátíð skólans sem fram fór þann 11. mars. Þar voru valdir fulltrúar Flataskóla á lokakeppni skólanna í Garðabæ og Seltjarnarnesi sem fram fer í apríl. Keppendur stóðu sig með stakri prýði og var vandi að velja. En niðurstaðan varð sú að þau Helga María Guðjónsdóttir, Sædís Arna Kristjánsdóttir og Dagur Óli Jóhannsson urðu hlutskörpust og á meðfylgjandi mynd má sjá þessa glæsilegu fulltrúa okkar.

Skóladagatal næsta skólaárs

Drög að skóladagatali næsta skólaárs má nú nálgast á heimasíðu skólans, en með þeim fyrirvara að það gæti hugsanlega tekið smávægilegum breytingum. Þó er ljóst að helstu dagsetningar s.s. skólasetning og skólaslit, skipulagsdagar og vetrarfrí munu halda sér þar sem þær dagsetningar eru samræmdar hjá skólum bæjarins. Dagatalið má nálgast hér..

Opinn fundur skólaráðs / matsgögn sem varða skólastarfið

Í starfsáætlun skólans og reglugerð um skólaráð í grunnskólum er gert ráð fyrir að skólaráð haldi að lágmarki einn opinn fund á ári um málefni skólans fyrir aðila skólasamfélagsins. Fundurinn í ár var haldinn þriðjudaginn 16. mars sl. en vegna sóttvarnaráðstafana var hann með fjarfundarsniði. Á fundinum fór skólastjóri yfir matsgögn um skólastarfið s.s. niðurstöður kannana o.fl. auk þess sem tækifæri gafst til almennra fyrirspurna og umræðna. Vakin er athygli á því að stærstan hluta þeirra gagna sem kynnt voru á fundinum er hægt að nálgast á heimasíðu skólans undir "sjálfsmat skólans" eða á þessari slóð: http://flataskoli.is/skolinn/aaetlanir/sjalfsmat-skolans/

Frá Almannavörnum vegna ferðalaga til útlanda um páskana


Upplýsingar til þeirra sem ferðast erlendis um páskana eða eru að koma til landsins.


Farþegar þurfa að sýna vottorð um neikvætt PCR próf gegn COVID-19 áður en þeir stíga um borð í flugvél eða skip á leið til Íslands og einnig við komuna. Prófið verður að hafa verið tekið innan við 72 klukkustundum fyrir brottför (á fyrsta legg ferðar). Frekari upplýsingar eru að finna hér: https://www.covid.is/undirflokkar/ferdalog-til-og-a-islandi

Farþegar þurfa að fara í tvær sýnatökur til greiningar á COVID-19 eftir komuna til landsins, fyrst á landamærum svo 5 dögum síðar og vera í sóttkví meðan beðið er eftir seinni sýnatöku. Sóttkví líkur með neikvæðri niðurstöðu. Frá og með 1. apríl næst komandi þurfa öll börn fædd 2005 og síðar fara í sýnatöku á landamærunum. Börn sem ferðast með foreldrum eða forráðamönnum eða einhverjum öðrum sem skylt er að fara í sóttkví fylgja þeim í sóttkví og losna úr henni með seinni sýnatöku samfylgdarfólks. Börn þurfa þó ekki að framvísa neikvæðu PCR prófi við komu.

Það er mikilvægt að fylgja fyrirmælum stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir smit í skólum og í samfélaginu. Það hefur mikil áhrif á skólastarf þegar upp koma smit í skólum, eins og við höfum margoft séð. Í kjölfarið þurfa oft mörg börn og fjölskyldur þeirra að fara í sóttkví sem er íþyngjandi aðgerð sem raskar daglegu lífi. Hægt er að minnka líkurnar á slíkum inngripum með því að fara eftir tilmælum sóttvarnalæknis og stjórnvalda og fylgjast vel með öllum breytingum á þeim sem er hægt að nálgast á covid.is.


Með von um góðar viðtökur og ósk um gleðilega páska.


Virðingarfyllst,

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.

Styrkur til íþrótta- og tómstundastarfs

Vakin er athygli á íþrótta- og tómstundastyrkjum fyrir grunnskólabörn sem búa á heimilum þar sem heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks, voru lægri en 740.000 kr. að meðaltali á mánuði á tímabilinu mars – júlí árið 2020. Um er að ræða sérstakt verkefni félags- og barnamálaráðherra í kjölfar Covid-19 faraldursins. Styrkurinn er veittur vegna barna sem fædd eru á árunum 2005-2014 og er að hámarki 45.000 krónur fyrir hvert barn sem stundar skipulagt tómstunda- og/eða íþróttastarf undir leiðsögn þjálfara eða leiðbeinanda. Athugið að hægt er að koma með kvittanir fyrir íþrótta- og tómstundastarfi sem greitt var fyrir í upphafi árs, eða frá hausti 2020. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og kanna rétt sinn til styrksins með því að skrá sig inn á island.is og einnig er nánari upplýsingar að finna hér: https://island.is/styrkur-til-ithrotta-og-tomstundastarfs

Íslensku menntaverðlaunin - tilnefningar óskast

Embætti forseta Íslands í samstarfi við fjölmarga aðila veitir árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin heita Íslensku menntaverðlaunin. Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:

  1. Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
  2. Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
  3. Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.

Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

Allir geta sent inn tilnefningar til verðlaunanna og skulu þær hafa borist fyrir 1. júní. Nánari upplýsingar er að finna á vef verðlaunanna: https://skolathroun.is/menntaverdlaun/

Skólamatur - áskrift

Við minnum á að breytingar á mataráskrift þarf að tilkynna fyrir 25. dag hvers mánaðar ef þeirra er óskað. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan má nálgast skráningarsíðu og áskriftarskilmála.

Opnunartími skrifstofu - skráningar fjarvista

Skrifstofa skólans er opin:
Mánudaga – fimmtudaga frá kl: 7:45 – 15:00.
Föstudaga frá kl. 7:45-14:30


Mælst er til að foreldrar/aðstandendur skrái veikindi nemenda á Fjölskylduvef Mentor.is eða með Mentor appinu.
Auk þess er hægt að tilkynna forföll á skrifstofu skólans með tölvupósti á netfangið flataskoli@flataskoli.is eða í síma 513 3500. Vakin er athygli á að ef veikindi vara lengur en einn dag skal tilkynna daglega.

ATH - ef nemendur þurfa að fara í sóttkví biðjum við nemendur um að tilkynna það með tölvupósti á flataskoli@flataskoli.is


Leyfisbeiðnir fyrir nemendur

Nemendum er veitt leyfi til að sinna nauðsynlegum erindum. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki og jafnframt eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að fara fram á þær með góðum fyrirvara sé þess nokkur kostur. Foreldrar eru beðnir um að sækja um leyfi hjá skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra ef óskað er eftir leyfi meira en tvo daga, (umsókn um leyfi) annars nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara.