95% skóla þurfa meiri aðstoð

við að kenna íslensku sem annað mál.

Aðeins tvö íslensk forrit keppa við ensku um að kenna framburð og hljóðkerfisþætti

Vísbendingar eru um að 95% grunnskóla í Reykjavík telji sig þurfa meiri aðstoð við að kenna íslensku sem annað mál. Sömu sögu er að segja úr leikskólum.

Þetta kom fram hjá Dröfn Rafnsdóttur verkefnastjóra á skrifstofu skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar á ráðstefnunni LÆSI skilningur og lestraránægja. Ráðstefnan var haldin á vegum Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri og Menntamálastofnunar laugardaginn 17. september s.l. Dröfn veitir ráðgjafaþjónustu Reykjavíkurborgar, Miðju máls og læsis, forstöðu. Þar er unnið að forathugun á þörf fyrir frekari aðstoð.


Yfir 1300 börn í skólakerfi Reykavíkurborgar eru með annað móðurmál en íslensku. Öllum er ljóst að snjalltækjavæðing með ensku efni yfirgnæfir markaðinn sem gerir verkefnið, að kenna íslensku, enn erfiðara.


Í málstofu á ráðstefnunni kom fram að tvö íslensk smáforrit hafa verið þróuð til að taka þátt í snjalltækjavæðingunni hvað varðar íslenskan framburð, orðaforða og hljóðkerfisþætti. Þau bjóða kennurum og nemendum að nýta snjalltæknina til að öðlast færni í myndun íslensku málhljóðanna um leið og mikilvægir þættir eru þjálfaðir til undirbúnings læsis.


„Snjalltæknin er orðin hluti af lífi flestra barna og því gríðarlega mikilvægt fyrir framtíð íslenskunnar að börn hafi aðgang að vönduðu íslensku efni þegar hið enska tröllríður snjalltækninni. Ég hef unnið við að þróa smáforritin með góðum hópi íslensks fagfólks undanfarin ár og alveg ljóst að söluverð á þessu íslenska efni er langt undir kostnaðarverði. Þetta þarf að komast til allra barna. Við verðum að bregðast við. Það þýðir ekkert að væla yfir enskum snjallforritum, þau fara ekkert. Þau bara stigmagnast. En við getum gert betur í að nýta þau forrit sem við þó eigum um leið og við sækjum fram á þessu sviði. Allir skólar þurfa að eiga þau“, segir Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur, höfundur forritanna.


Íslensku smáforritin heita „Lærum og leikum með hljóðin“ og „Froskaleikur“. Hið síðarnefnda er spennandi leikjaform í þremur hlutum 1, 2, og 3. Einnig er unnt að fá efnið í einum hluta „Froskaleikur, skólameistarinn“.

„Forritin gera kleift að málahljóðakennslan lifnar við og börnin taka þátt í spennandi leikjum um leið og þau læra íslensku málhljóðin“, segir Bryndís.

Forritin eru gerð af Bryndísi með teymi ráðgjafa, sérfræðinga og listamanna til að byggja þau inn í hinn rafræna búning með myndum, tali og söng. Öppin fást á App store og eru bæði fyrir iPad og iPhone. Allar upplýsingar er unnt að fá með því að smella á tenglana hér að neðan:

Big image