Fréttabréf Hvassaleitisskóla

Janúar 2023

Gleðilegt glænýtt ár!

  • Handboltamánuðurinn janúar
  • Helgileikurinn
  • Vísindasmiðjuferð
  • Jólaball
  • Skautaferð
  • Nemendaráð
  • Textíll
  • Jólaleikritið
  • Tónmennt
  • Afmælissöngur
Big picture

Handboltamánuðurinn

Janúar er handboltamánuður í Hvassó eins og víðs vegar annars staðar á Íslandi. Á meðan strákarnir okkar hafa staðið í ströngu á HM í handbolta hafa Óskar og Snjólaug verið dugleg við að kynna þessa fögru íþrótt fyrir nemendum Hvassaleitisskóla. Meðfylgjandi myndir eru frá handboltaæfingu 4. bekkjar miðvikudaginn 18. janúar.

Helgileikurinn

4. bekkur sá um helgileikinn fyrir jólin 2022 og ákveðið var að breyta aðeins til þetta árið. Við fengum lánað handrit frá Vatnsendaskóla í Kópavogi sem við breyttum aðeins og bættum við nokkrum hlutverkum og meira var um söng og leik en áður. Æfingarnar gengu vel, nemendum fannst mjög gaman að æfa og allir voru sáttir við sín hlutverk. Þann 20. desember var svo komið að því að stíga á svið og auðvitað rúlluðu þau þessu upp og fóru ánægð í jólafrí.

Vísindasmiðjuferð 6. bekkjar

6. bekkur fór í heimsókn í Vísindasmiðjuna í Háskóla Íslands og hafði mjög gaman af. Þar fengu nemendur að framkvæma ýmsar tilraunir undir leiðsögn og upp á eigin spýtur í skapandi vísindaumhverfi.

Jólaballið

Skólaárið 2022 endaði með bráðfjörugu jólaballi á síðasta skóladegi ársins, þar sem tveir tónelskir jólasveinar heimsóttu skólann. Þeir spiluðu og sungu fyrir nemendur og buðu upp á skemmtilega tónlistargetraun með vel völdum jólalögum.

Skautaferð 7. bekkjar

Fyrir utan eitt fall og því miður meiðsli á viðbeini hjá einum nemanda þá var mikið fjör og mikið gaman í skautaferð 7. bekkjar í Laugardalnum mánudaginn 9. janúar.

Diskóljós og músík, tilþrif, föll og byltur, ollu mikilli kátínu hjá krökkunum. Nokkrir íshokkísnillingar geystust áfram á miklum hraða og inn á milli mátti glitta í stökk og hringsnúninga hjá þeim nemendum sem hafa æft listdans á skautum.

Nemendaráð

Kosningu um fulltrúa í nemendaráð skólans er lokið. Margir áhugasamir nemendur buðu sig fram og héldu flottar framboðsræður. Að lokum var lýðræðisleg kosning þar sem nemendur í 3. – 5. bekk kusu einn fulltrúa úr bekknum sínum og nemendur í 6. og 7. bekk kusu tvo fulltrúa. Í 2.bekk var einn fulltrúi skipaður af kennurum.

Í nemendaráði vorið 2023 eru:
2. bekkur = Mekkín
3. bekkur = Styrmir Páll
4. bekkur = Nadía Líf
5. bekkur = Daníel Hrafn
6. bekkur = Alex og Dallilja
7. bekkur = Myrra og Óttar Leó

Nemendaráð mun funda tvisvar í mánuði og tveir nemendur úr ráðinu verða skipaðir fulltrúar í skólaráði. Þar fara þeir yfir þau málefni sem nemendaráð hefur fjallað um og telur mikilvægt að skólaráð taki við og komi í farveg. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir nemendur til að hafa áhrif á skólastarfið.

Textíll í Hvassó

„Hvenær kem ég í textíl ?“ er spurning sem textílkennarinn fær oft að heyra á göngum skólans, en hér fyrir neðan er staðan hjá hópunum í öllum bekkjum.


1. bekkur: Lóu-hópurinn var að hætta og Spóa-hópurinn tók við og verður fram að vori.
2. bekkur: Fyrsti hópurinn í öðrum bekk var að mæta í textíl og það er hópurinn Tjaldur.

3. bekkur er búinn í textíl í vetur.
4. bekkur: Bara einn hópur er búinn (Skógarfoss) en Glymur kemur 2. febrúar og Dettifoss 12. apríl.
5. bekkur: Reynitré byrjuðu rétt fyrir jól og verða fram í byrjun febrúar en Birkitré eru útskrifuð þetta skólaárið.
6. bekkur: Einn hópur á eftir að koma í textíl og það eru Oddverjar sem byrja 18.april.

7. bekkur: Sólar-hópurinn var að hætta. Jarðar-hópurinn tók við og verður rétt fram yfir miðjan febrúar þegar Mána-hópurinn tekur við.


Hér er svo hlekkur á Textíl í Hvassó vefsíðuna, þar sem finna má myndir af verkum nemenda og upplýsingar um vinnu- og kennsluaðferðir.

Jólaleikritið

Mánudaginn 19. desember sýndu krakkarnir í 7. bekk leikritið Þrettán dagar til jóla. Upprunalegt handrit var samið af umsjónarkennara og síðan voru gerðar ýmsar breytingar í samvinnu við nemendur.


Leikritið fjallar um gauraganginn sem það ylli óhjákvæmilega ef allir íslensku jólasveinarnir, Grýla, Leppalúði og illvíga gæludýrið Jólakötturinn, kæmu við á kaffihúsi á leiðinni til byggða.


Nemendur stóðu sig glimrandi vel og sýndu skemmtileg tilþrif í sínum hlutverkum.

Tónmennt í upphafi árs

Í 3. bekk byrjuðum við árið á nokkurs konar dýraþema þar sem við unnum hlustunarverkefni úr Karnivali dýranna og sungum svo lög sem fjölluðu um dýr.


Í 5. bekk hafa nemendur fræðst um tré-, málm- og klukkuspil og eru nú farnir að æfa sig í að spila undirleik undir eigin söng við Krummavísur (Krummi svaf í klettagjá). Þetta er mjög skemmtileg vinna en krefst líka mikillar einbeitingar og samhæfingar.


Í 7. bekk hafa nemendur nýtt sér tæknina og unnið eigin tónverk í Garageband. Við byrjuðum á því að skoða kennslumyndband þar sem farið var yfir hvernig við byggjum upp lag með því að byrja t.d. á trommutakti og bæta svo bassa og öðrum hljóðfærum ofan á. Einnig fórum við yfir form laga, þ.e. inngang, erindi, viðlag o.s.frv. Nemendur hafa svo unnið 2 og 2 saman með iPad og samið eigið lag.

Afmælissöngur

Mánudaginn 16. janúar varð skólastjórinn okkar, hún Iðunn Pála, 40 ára. Nemendur og kennarar í 2. bekk voru svo dásamleg að koma upp á skrifstofu og syngja fyrir afmælisbarnið. Við óskum Iðunni okkar innilega til hamingju með stórafmælið.