Fréttabréf Kópavogsskóla

júní 2017

Frá skólastjóra

Undirbúningur vegna skólaársins 2017-2018 er nú langt kominn og það sem eftir er verður lokið við í byrjun ágúst. Í fréttabréfi þessu eru nokkur atriði ykkur til upplýsingar, bæði um það sem liðið er og það sem er framundan. Skólastarf næsta skólaárs hefs 15. ágúst þegar kennarar koma til starfa en skólasetning og fyrsti skóladagur nemenda verður þriðjudaginn 22. ágúst. Tímasetningar verða auglýstar á heimasíðu og Facebooksíðu skólans. Vona að þið eigið öll ánægjulegt sumar framundan og færi ykkur þakkir fyrir samstarfið í vetur.

Námsgagnakaup

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti þann 13. júní sl. samþykkt Menntaráðs frá haustinu 2016 um að grunnskólarnir reyndu að draga sem mest úr innkaupakostnaði foreldra vegna námsgagna. Í samþykkt Menntaráðs er hvatt til þess að grunnskólarnir fari í sameiginleg innkaup í samstarfi við foreldrafélög skólanna og það verður gert. Stjórnendur Kópavogsskóla sendu rafræna könnun á foreldra barna í 1.-7. bekk til að kanna vilja þeirra gagnvart því að skólinn sæi um sameiginleg innkaup. Niðurstaðan er mjög afgerandi því 75-95% foreldra í viðkomandi árgöngum voru því fylgjandi. Búið er að taka saman lista yfir þau gögn sem nemendur þurfa að nota og innkaupadeild Kópavogsbæjar mun leita tilboða í öll gögnin. Kostnaður foreldra verður kr. 4.000- á barn fyrir nemendur í 1.-7. bekk en annar háttur verður hafður á varðandi nemendur í 8.-10. bekk og gjaldið fyrir þá nemendur verður kr. 2.500- Foreldrar allra barna eiga að hafa fengið bréf (í mentor) vegna þessa með nánari upplýsingum.

Framkvæmdir á skólalóð

Framkvæmdir við endurbætur á skólalóðinnni eru í fullum gangi og svæðið að taka á sig endanlega mynd. Það er ljóst að nýja svæðið á eftir að gjörbreyta möguleikum barna í frímínútum og vonandi geta nú allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Þó fótbolti sé vinsæll er hann ekki uppáhald allra og fjölbreytileikinn því nauðsynlegur. Ný svæði hafa oft smávægileg óhöpp í för með sér meðan börn eru að læra á svæðin og venjast þeim. Því eru foreldrar hvattir til að fara með börn sín á svæðið þegar það verður fullklárað og kenna þeim á það.

Niðurstöður samræmdra prófa

Nemendur í 9. og 10. bekk tóku samræmd próf í mars en töluverð breyting hefur orðið á framkvæmd þeirra. Prófin eru eingöngu rafræn og verða hér eftir lögð fyrir nemendur 9. bekkjar en ekki 10. bekkjar. Í þetta eina skipti þreyttu báðir árgangar prófin og niðurstöðurnar voru mjög góðar í báðum árgöngum. Viðmiðunartala allra grunnskóla er stillt á 30 í hverri námsgrein og skóli sem er undir 30 er fyrir neðan meðaltal og skóli sem er yfir 30 er fyrir ofan meðaltal skóla á landinu. Niðurstöður Kópavogsskóla eru sem hér segir:


10. bekkur: Íslenska = 35, Stærðfræði = 32, Enska = 33


9. bekkur: Íslenska = 31, Stærðfræði = 32, Enska = 32


Hlutfall þeirra nemenda Kópavogsskóla sem fékk A eða B+ er mjög hátt og ánægjulegt að sjá hve vel nemendur stóðu sig í heildina.


Á vef Menntamálsatofnunar er að finna ýtarlegar upplýsingar um prófniðurstöður og kynningar og slóðin er https://mms.is/frettir/nidurstodur-samraemdra-konnunarprofa-birtar

Mentor í símann

Hægt er að setja upp flýtileið í síma fyrir mentor. Þá þarf ekki að opna vafra og fara inn á vefsíðu heldur verður til flýtileið í gegnum lítinn tengil á skjánum. Skólinn hvetur foreldra til að nýta sér þennan möguleika sem er mjög handhægur. Margir nýta sér hann örugglega nú þegar og þeim foreldrum fjölgar stöðugt sem fara þá leið að skrá veikindi barna beint í Mentor í stað þess að hringja í skólann. Hér er tengill á hvernig flýtileiðin er sett inn https://www.youtube.com/watch?v=kVee_6ryBsk Mentor er með sér svæði á YouTube og ef farið er inn á YouTube og slegið inn í leitarglugga InfoMentorIsland má sjá fjölda kennslumyndbanda sem gagnast notendum vel.

Mentor K3

Frá upphafi næsta skólaárs færir Kópavogsskóli sig yfir í K3 kerfi Mentors en K3 stendur fyrir ,,þriðja kynslóð". Auðveldara á að vera fyrir foreldra og nemendur að nálgast upplýsingar um nemandann og námsskipulag kennarans og um leið auðveldara fyrir kennara að gera skilaboð til foreldra sýnilegri. Ætlunin er að nýta sér möguleika dagatalsins í nýja kerfinu svo foreldra geti alltaf séð hvað er framundan af fundum og atburðum sem ætlaðir eru viðkomandi árgöngum. Kynningarmyndband fyrir foreldra og nemendur er á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=XplrlLKLnog og mikilvægt að kynna sér það.

Ráðningar stjórnenda

Björk Hlöðversdóttir aðstoðarskólastjóri var í leyfi skólaárið 2016-2017 og vegna flutninga sagði hún starfi sínu lausu nú í vor. Staða aðstoðarskólastjóra var því auglýst laus til umsóknar og Guðný Sigurjónsdóttir deildarstjóri sem leysi Björk af var að loknu umsóknarferli ráðin sem aðstoðarskólastjóri. Bergþóra Þórhallsdóttir sem leysti Guðnýju af verður áfram deildarstjóri en einnig er búið að ganga frá ráðningu deildarstjóra sérúrræða. Í starfið var ráðin Erla Gígja Garðarsdóttir og hún mun hafa yfirumsjón með Námsveri Kópavogsskóla og öllum stuðnings- og sérkennslumálum skólans. Það er ánægjulegt að búið sé að ganga frá þessum málum og starfsskilgreiningar verða kynntar í upphafi næsta skólaárs.
Big image

Mötuneyti Kópavogsskóla

Skólamatur hefur mörg undanfarin ár séð um mötuneyti nemenda og starfsmanna. Samningur við fyrirtækið rann út í lok skólaársins og vonir stóðu til að skólinn fengi heimild til að taka við rekstri mötuneytisins. Ósk þar um var send bæjaryfirvöldum í samstarfi við foreldrafélag skólans en það lá fyrir að gera þarf töluverðar breytingar á eldhúsinu svo hægt yrði að elda máltíðir frá grunni á staðnum. Búið er að teikna upp breytingarnar og kostnaður við þær er áætlaður um 20 milljónir með öllu. Því miður verður ekki af þessu í ár vegna þeirrar óvæntu og afleitu stöðu sem kom upp með húnæði Kársnesskóla og málinu því frestað. Þar sem samningurinn við Skólamat rann út var auglýst eftir tilboðum í rekstur mötuneytisins og niðurstaða útboðsins var að semja við fyrirtækið ISS um reksturinn. Það var samþykkt í bæjarstjórn 15. júní sl. Nú er verið að ganga frá samningum og því ljóst að nýr aðili tekur við rekstrinum í upphafi næsta skólaárs. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag áskriftar verður sent fyrir skólabyrjun. Skólamat er þakkað ánægjulegt samstarf á liðnum árum og nýr aðili boðinn velkominn.

Innra mat

Grunnskólum er ætlað samkvæmt lögum að leggja mat á starf sitt með það að leiðarljósi að bæta skólastarfið. Kópavogsskóli hefur undanfarin ár nýtt sér Skólapúlsinn sem sérhæfir sig í könnunum fyrir grunnskóla. Þeir bjóða upp á kannanir sem snúa að nemendum, foreldrum og starfsmönnum og í Kópavogsskóla eru kannanir lagðar fyrir tvo hópa á ári. Það er alltaf lögð könnun fyrir nemendur en könnun fyrir foreldra er send út annað hvert ár og könnun fyrir starfsmenn hitt árið. Skýrslur vegna matsins eru birtar á vef skólans á síðunni ,,Mat á skólastarfi" og foreldrar eru hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar og þær leiðir sem farnar verða til úrbóta.
Big image

Samskipti foreldra og skóla

Undanfarin ár hafa orðið mjög miklar breytingar á starfsumhverfi kennara og þar hafa möguleikar rafrænna miðla og skilaboða opnað á nýjar leiðir í samskiptum. Aðgengi foreldra að kennurum er orðið mun meira en áður og þau eru ófá skilaboðin sem þeir fá daglega vegna ýmisa mála, stórra sem smárra. Þó kennarar séu allir af vilja gerðir getur það reynst þeim mjög erfitt að bregðast strax til skilaboðum því þeir hafa einfaldlega mjög takmarkaðan tíma til þess vegna kennsluundirbúnings og skipulagsmála. Við biðjum foreldra að sýna því skilning þó ekki náist að svara skilaboðum samdægurs ef þannig stendur á. Skilaboðum er forgangsraðað en markmiðið er að sjálfsögðu að svara eins fljótt og auðið.

Framkvæmdir

Um leið og skóla lauk í vor hófust framkvæmdir við endurbætur og viðhald á skólahúsnæðinu. Neðri unglingagangur verður allur endurgerður og verður að loknum breytingum með sama sniði og efri gangurinn. Þegar þetta er skrifað er búið að fjarlægja gamla dúkinn og verið að slípa flotefni af áður en flotað verður á ný og nýr dúkur lagður. Sérkennslurými á neðri hæð unglingastig verður tekið í gegn með sama hætti og gangurinn og einnig er verið að innrétta sérkennslurými í elsta hluta skólans. Þá er verið að einangra matsalinn betur með lokun opa gegnt stofum 103 og 105. Það á að draga úr þeim klið sem skapast á matartímum og skilaði sér gjarnan inn í kennslustofurnar.

Á nokkrum stöðum hefur orðið vart við leka frá gluggum og unnið verður að þéttingum þeirra í sumar.