Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

VOR Í LOFTI

Kæru þátttakendur í Grænu skrefunum. Nú tekur snjóinn að leysa (samt alltaf von á meiru) og það er vor í lofti. Því ákvað ég að breyta bakgrunninum á fréttabréfinu, það voru áður tré með nýföllnum snjó ef einhver man ekki. Með hækkandi sól fáum við aukinn kraft til þess að takast á við öll þessi verkefni sem að okkur er ýtt - og það á líka við um Grænu skrefin. Verið er að vinna í því að útbúa fræðslu um hvert skref í örmyndbandaformi, það auðveldar ykkur vinnuna. Það á ekki að vera flókið að vinna með Grænu skrefin - við getum klárað þetta saman!


Það hefur verið heldur rólegt yfir nýskráningum og viðurkenningum síðasta mánuðinn. Þau sem hafa komið ný inn frá síðasta fréttabréfi eru:


  • Félagsmiðstöðin 111
  • Frístundaheimilið Bakkasel
  • Heimaþjónusta og heimahjúkrun, Vesturbyggð.
  • Félagsmiðstöðin Bakkinn
  • Félagsmiðstöðin Fellið
  • Sjóminjasafnið og fjölskyldumiðstöðin Gerðubergi eru svo að endurnýja skráningar sínar og taka upp þráðinn á ný.



Frístundaheimilið Halastjarnan fékk viðurkenningu fyrir skref 1 og Hitt húsið kláraði öll skrefin fjögur og fékk viðurkenningu sína nú í febrúar. Myndir hér fyrir neðan.

Endurnýjun aðgerða Grænna skrefa

Það var kominn tími á þetta. Grænu skrefin hafa aftur verið uppfærð og endurskrifuð - síðast var það gert 2019. Breytingarnar gerast ört í þjóðfélaginu og við verðum að fylgja með. Það var þó ekki algjör stefnubreyting eða umsnúningur á aðgerðalista grænu skrefanna, en það voru nokkrar aðgerðir teknar út og aðrar settar inn í staðinn. Í heildina styttist aðgerðalistinn og nú eru í fyrsta skrefi 33 aðgerðir í stað 38 áður, í skrefi tvö eru nú 32 aðgerðir en voru 36 áður. Í þriðja skrefi fækkar aðgerðunum úr 30 í 23 og í því fjórða fækkar aðgerðunum um þrjár.


Nýtt vinnuskjal verður sett í staðinn fyrir það gamla í lok mars. Þangað til vinna allir með það sem er í gangi núna og þegar það nýja kemur munu þeir starfsstaðir sem eru komnir langt með eitthvað skref einfaldlega halda áfram að vinna með eldra skjalið, en þeir starfsstaðir sem ekki eru komnir af stað munu byrja að nota nýja skjalið (hvort sem þeir eru að byrja á fyrsta skrefi, öðru, þriðja eða fjórða).


Plaggötin verða uppfærð í samræmi við nýjan texta en þau verða líklega ekki tilbúin fyrr en í apríl. Einnig verða búnir til nokkrir nýir límmiðar. Það verður spennandi að kynna þá, en þeir verða kynntir í næsta fréttabréfi.