Fréttabréf forseta í júní 2019

Delta Kappa Gamma á Íslandi, félag kvenna í fræðslustörfum

Big picture

Landssambandsþing 4.maí

Við héldum okkar hefðbundna landssambandsþing þann 4.maí. Þingið var haldið í Kvennaskólanum í Reykjavík og Ingibjörg Guðmundsdóttir, formaður Kappadeildar sá að mestu um allt sem sneri að umgjörð þingsins og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Það fór vel um okkur og matur og annar viðurgjörningur var hinn besti. Framkvæmdaráðsfundur í haust samþykkti að vera með eins dags þing að þessu sinni þar sem annað stórt verkefni liggur fyrir síðar í sumar.

Á þinginu var hefðbundinn aðalfundur þar sem lögð var fram skýrsla stjórnar og reikningar sem hvorutveggja var samþykkt. Fulltrúi alþjóðasamtakanna á fundinum var Dr. Lace-Marie Brogden annar varaforseti og flutti hún okkur fréttir af alþjóðastarfinu. Ný stjórn var kjörin og tekur hún formlega við þann 1.júlí. Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir í Alfadeild verður okkar næsti landssambandsforseti og með henni verða í stjórn þær Jónína Hauksdóttir og Aníta Jónsdóttir úr Betadeild, Guðrún Edda Bentsdóttir úr Kappadeild og Theodóra Þorsteinsdóttir úr Deltadeild.

Menntamálanefnd skipulagði fræðsluerindi eftir hádegið, þar fjallaði Lace-Marie Brogden um leiðtogafærni og hversu mikilvægt það er að taka sjálfur forystu í eigin lífi og að því loknu fjallaði Dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir um líffsögur ungs fólks. Við áttum svo samræður um erindi Sigrúnar og hvernig DKG gæti, í ljósi þess sem þar hafði komið fram, lagt sitt af mörkum til að gera kennurum betur kleift að koma til móts við ungt fólk. Mér fannst þingið skemmtilegt eins og við er að búast þar sem DKG konur koma saman. Takk fyrir þátttökuna. Hér er hlekkur á fundargerð landssambandsþingsins á vefnum okkar.


https://www.dkg.is/is/thing-og-namskeid/landssambandsthing/lands-thing-2019

Alþjóðaráðstefnan 25.-27.júlí

Undirbúningur fyrir ráðstefnuna er nú langt kominn. Það eru hins vegar alltaf að koma upp einhver verkefni sem leysa þarf úr, sérstaklega í sambandi við skráningar. Dagskráin er metnaðarfull og gaman er að sjá að margir þeir fyrirlesarar sem verða hjá okkur fá reglulega umfjallanir í fjölmiðlum vegna þess sem þeir eru að gera. Það segir okkur að við höfum hitt á að vera með fyrirlesara sem hugsa stórt og vilja hafa áhrif á menntamál í kringum sig. Skráningar ganga ágætlega þó er ekki kominn sá fjöldi sem þarf til að dekka allan kostnað við ráðstefnuna. Þetta er frábært tækifæri fyrir konur í DKG á íslandi til að taka þátt í alþjóðlegu starfi án þess að þurfa að kosta til miklum fjárhæðum vegna ferðalaga. Þegar maður hefur prófað það sér maður fyrst hversu stór samtökin okkar eru og hversu mikil áhrif er hægt að hafa með virkri þátttöku. Ég vil því hvetja ykkur til að skrá ykkur og taka þátt í þessum skemmtilega og fræðandi viðburði með okkur. Hlekkur á ráðstefnusíðuna er hér að neðan, þar má bæði skoða dagskrána og skrá sig á ráðstefnuna og tengda viðburði. Já, því þetta verða ekki bara fræðsluerindi, það verður líka skemmtileg kvölddagskrá með skemmtilegum konum.


https://dkgerc2019.weebly.com/

Happadrætti á ráðstefnunni

Það er hefð fyrir því að vera með happadrætti á alþjóðaráðstefnum DKG og við munum að sjálfsögðu halda því í okkar dagskrá. Samþykkt hefur verið sú tillaga að biðja hverja deild að leggja til einn handunnin vinning sem auðvelt er að ferðast með, til dæmis vettlinga eða annan prjónavarning. Ég vil biðja alla formenn deilda að senda póst á Ingibjörgu Elsu, formann stýrihóps, með upplýsingum um hvað deildin er að hugsa um að leggja til happadrættisins. Netfangið hennar er ieg@internet.is.

Vorfundur Deltadeildar

Forseti var svo heppinn að komast á vorfund Deltadeildar sem haldinn var í Nesi í Reykholtsdal 29. og 30.maí. Þar var tekin inn ný félagskona við hátíðlega athöfn eins og vera ber. Svo var fróðleg og skemmtileg dagskrá þar sem Soffía Sigurjónsdóttir sagði frá verkum móður sinnar, Sigríðar Kjaran, sem var ótrúlega afkastamikill listamaður. Guðlaug Sverrisdóttir leiddi svo hópinn í hressilegum línudansi fyrir svefninn og þá var nú hlegið saman. Dansinn var svo rifjaður upp í morgunleikfiminni og gekk alveg glimrandi vel. Þá kom Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir og kynnti ,,jákvæða sálfræði" og að því loknu voru skemmtilegar samræður um veruna í Delta Kappa Gamma. Að lokum var svo happadrætti, en Delta systur nota happdrætti til fjáröflunar á hverjum fundi og er fyrirkomulagið þannig að sú kona sem fær vinning gefur næsta vinning. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu ef fleiri deildir vilja taka þetta upp.

Ég þakka Deltasystrum kærlega fyrir boðið, fundinn og skemmtilega samveru í dásamlegu umhverfi.

Komið að lokum starfstímabils stjórnar

Kæru DKG systur

Það líður nú að lokum starfstímabils þessarar stjórnar og því finnst mér rétt að þakka ykkur öllum fyrir gott samstarf þessi tvö ár sem það hefur staðið. Ég vil líka þakka fyrir tækifærið sem ég fékk með því að fá að vera forseti, það hefur verið ákaflega lærdómsríkt og jafnframt skemmtileg reynsla. Ég hlakka til að starfa með nýrri stjórn og forseta og þó að þetta hafi verið góður tími er líka gott að honum er að ljúka því auðvitað hefur hann verið annasamur og ýmis önnur verkefni setið á hakanum fyrir vikið. Forseti verður nú samt á vaktinni til 30.júní og svo tekur við stúss í kringum ráðstefnuna. Ég vonast til að hitta ykkur sem flestar þar.