Fréttabréf Grenivíkurskóla

4. tbl. 2. árg. - apríl 2021

Kæra skólasamfélag

Eftir nokkra dásamlega og nokkurn veginn veirufría mánuði er Covid-19 farið að láta á sér kræla á nýjan leik. Af þeim sökum hafa verið kynntar til sögunnar svipaðar takmarkanir á skólastarfi og voru í gildi í upphafi árs. Fjöldatakmarkanir munu miðast við 50 nemendur að hámarki í sama rými og 20 starfsmenn, en þessar reglur munu gilda t.o.m. 15. apríl nk.


Þetta þýðir þó að við getum sem betur fer haldið uppi nokkurn veginn óbreyttu skólastarfi hér í Grenivíkurskóla. Að sjálfsögðu munum við brýna fyrir nemendum að huga að persónubundnum smitvörnum og starfsfólk mun að sama skapi gæta að fjarlægðarmörkum, grímuskyldu o.þ.h., en nemendur eru undanskildir þeim reglum. Þá eru foreldrar og aðrir gestir beðnir um að koma ekki í skólann nema vegna brýnna erinda, og passa þá upp á grímuskyldu.


Það er óskandi að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til beri árangur sem fyrst og að við sjáum jafnvel tilslakanir strax 15. apríl.


Þrátt fyrir óvissu varðandi næstu vikur höfum við tekið ákvörðun um að keyra vorskemmtunarundirbúning í fullan gang. Að óbreyttu verða sýningar dagana 28. og 29. apríl nk., en nákvæmlega hvert fyrirkomulagið á þeim verður mun ráðast af gildandi samkomutakmörkunum.


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Skíðadagur

Miðvikudaginn 3. mars síðastliðinn fóru nemendur Grenivíkurskóla á skíði í Hlíðarfjalli. Dagurinn tókst ákaflega vel, veðrið lék við okkur og stórir og litlir sigrar unnust í brekkunum. Nemendur fengu kakó og ostabrauð - sem vekur alltaf mikla lukku - og allir komu heilir heim.


Hér má sjá nokkrar myndir frá skíðadeginum.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk

Innanhússhluti Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk fór fram í Grenivíkurskóla mánudaginn 1. mars sl. Þar lásu nemendur í 7. bekk valda texta, sögur og ljóð, fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans.


Nemendur stóðu sig með mikilli prýði og það er ávallt gaman að sjá afrakstur æfinga vetrarins.


Dómnefndin valdi þau Olgeir Mána Bjarnason og Sigurlaugu Birnu Sigurðardóttur sem fulltrúa skólans á lokahátíðinni, sem fram fór 9. mars, en þar tóku einnig þátt fulltrúar frá Hrafnagilsskóla, Þelamerkurskóla, Dalvíkurskóla og Grunnskóla Fjallabyggðar.


Við óskum öllum þátttakendum til hamingju með glæsilega frammistöðu og árangurinn í vetur.

Útiskóli í apríl

  • 5.-6. bekkur: Eyðibýli í Grýtubakkahreppi
  • 1.-4. bekkur: Form í snjónum og veðrið, veðurtákn og veðurfréttir

Á döfinni í apríl

  • 6. apríl: Skóli hefst samkvæmt stundaskrá að loknu páskafríi.
  • 22. apríl: Sumardagurinn fyrsti. Frí í skólanum.
  • 23. apríl: Starfsdagur. Frí hjá nemendum.
  • 28. og 29. apríl: Vorskemmtun. Gæti breyst vegna Covid-19.

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla