Fréttabréf

Ágúst 2021

Kæru foreldrar og forráðamenn

Þá er skólinn kominn í gang og óskandi að hann geti starfað með sem eðlilegustum hætti í vetur. Eins og staðan er núna þá er grímuskylda fyrir alla utanaðkomandi fullorðna og ekki unnt að boða marga inn í skólann á sama tíma. Vonandi verður hægt að verja skólann með þessum hætti þannig að nemendur geti notið eins ótakmarkaðs skólastarfs og hægt er.


Fyrstu skóladagarnir einkennast gjarnan af hópefli, vinnu við bekkjarsáttmála og útiveru. Þá er nauðsynlegt að rifja upp skólareglur, umferðarreglur og reglur sem gilda á skólalóðinni á skólatíma. Við þurfum að gera nemendum ljóst að reglur eru settar til þess að auka öryggi allra.


Við skólabyrjun er úthlutað námsgögnum. Við viljum fara vel með gögnin og nýta þau á ábyrgan hátt. Það að útvega nemendum námsgögn stuðlar að jöfnuði, sparnaði og jákvæðum umhverfisáhrifum. Með fræðslu og aukinni meðvitund um umhverfið ættum við í sameiningu, skólinn, foreldrar og nemendur að geta náð árangri í að nýta gögnin vel.


Með ósk um gott skólaár, starfsfólk Brekkuskóla

Hjól, hlaupahjól og hjálmar!

Vinsældir vélknúinna hlaupahjóla hefur aukist að undanförnu og sjáum við það greinilega í skólanum. Það er mikilvægt að minna á hjálmaskylduna og að þessum farartækjum má ekki aka á akbraut. Á vef Samgöngustofu má finna upplýsingar um notkun rafmagnshlaupahjóla.


Við bendum á að á skólatíma má ekki hjóla á skólalóðinni.


Gott að hafa í huga:

# Hjálpum börnunum að velja öruggustu leiðina í skólann og kennum þeim að fara yfir götur, með og án ljósastýringar.

# Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir.

# Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla.

Á döfinni

 • Útivistardagur 7. september. Nánari upplýsingar koma frá umsjónarkennurum.
 • Nemendur koma á sal næstu daga og farið verður yfir skólastarfið framundan.

Lesferill - lesfimi

Brekkuskóli leggur fyrir lesfimipróf frá Menntamálastofnun í öllum árgöngum þrisvar á hverjum vetri. Prófin eru hluti af Lesferli sem er ætlað að meta grunnþætti læsis: hljóðkerfisvitund, lesfimi, lesskilning, ritun, orðaforða og málskilning. Fyrsta fyrirlögn er í september, önnur í janúar og þriðja í maí.

Það er því um að gera að setja sig í stellingar og byrja að æfa lesturinn:-)

Uppeldi til ábyrgðar

Brekkuskóli hefur frá árinu 2008 verið með agastefnu sem ber heitið Uppeldi til ábyrgðar - Uppbygging sjálfsaga. (Restitution - Self Discipline) Í stuttu máli gengur hún út á það að kenna börnum og unglingum sjálfsstjórn og sjálfsaga.


Nemendur læra:

 • Að setja sér markmið, gera uppbyggingaráætlanir, stunda sjálfsrannsókn

 • Að rækta og efla sinn innri áhuga

 • Að bera ábyrgð á eigin námi

 • Að læra leiðir til að hafa stjórn á eigin hegðun

 • Aðferðir við lausn ágreiningsefna

 • Að sinna þörfum sínum af ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum.(Minni freisting að taka vonbrigði sín út á öðrum eða leggja aðra í einelti)

 • Að mynda tengsl við aðra

 • Að bera ábyrgð á eigin mistökum, leiðrétta þau og bæta fyrir þau

 • Að verða þeir sjálfir - þær manneskjur sem þeir vilja vera.

 • Að gera bekkjarsáttmála