Fréttabréf Kópavogsskóla

september 2019

Skólabyrjun

Nú er skólastarf komið á fullt og ánægjulegt að sjá börnin koma kát og hress eftir gott sumarleyfi. Skólabyrjunin hefur verið með hefðbundnum hætti en nokkur atriði til upplýsingar:  • Öllum endurbótum á húsnæðinu lýkur í þessari viku og við þökkum nemendum og starfsfólki þolinmæðina.
  • Það tekur um eina viku að árekstrarprófa stundaskrár og lagfæra ef þarf. Þeirri yfirferð er nú nánast lokið og val á unglingastigi byrjaði í þessari viku. Þar eru allir nemendur með einstaklingsstundaskrár þar sem eingöngu eru sýndar kennslustundir sem hver og einn á að sækja. Stundaskrárnar eru því ekki eins hjá öllum.
  • Nemendur geta fengið hafragraut í matsal skólans en hann er afgreiddur frá kl. 7:40-7:50 og er nemendum að kostnaðarlausu. Unglingastigið getur fengið hafragraut í nestistíma sínum kl. 10:00
  • Nemendur 10. bekkjar eru þátttakendur í Erasmus+ verkefni og eru að fá heimsókn frá jafnöldrum frá Spáni og Þýskalandi í lok mánaðarins.
  • Nemendur 7. bekkjar eru þessa vikuna í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði og nemendur 9. bekkjar fara í skólabúðir að Laugarvatni (ný staðsetning) vikuna 23.-27. september.
  • Hvetjum foreldra til að fylgjast með upplýsingum á vefsíðu skólans og á mentor og minnum á að það er hægt að fá mentor app í símann.

Haustfundir árganga

Haustfundir foreldra með umsjónarkennurum eru framundan. Fundirnir eru allir auglýstir á vefsíðu skólans en til áréttingar eru tímasetningarnar sem hér segir:


  • Fimmtudaginn 5. sept. kl. 08:00 er fundur með foreldrum í 8.-10. bekk
  • Þriðjudaginn 10. sept. kl. 08:00 er fundur með foreldrum í 2.-4. bekk
  • Miðvikudaginn 11. sept. kl. 08:00 er fundur með foreldrum í 5.-7. bekk

Jákvæður skólabragur - sameiginleg ábyrgð

Í Aðalnámskrá grunnskóla er í kafla 7.6 fjallað um Skólabrag en jákvæður skólabragur er á sameiginlegri ábyrgð skóla og heimila. Kaflinn er svohljóðandi:


,,Nemendur þurfa að tileinka sér í daglegu lífi ýmsa þætti til þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi, þ. á m. samskiptahæfni, virðingu, umburðarlyndi og skilning á upp- byggingu lýðræðislegs þjóðfélags. Nemendur þurfa að læra að umgangast hvern annan og allt starfsfólk skóla í sátt og samlyndi og taka ábyrgð á eigin framkomu og hegðun og virða skólareglur. Leggja þarf áherslu á námsaga og sjálfsaga nemenda. Til þess að svo megi verða ber starfsfólki skóla í hvívetna að stuðla að góðum starfsanda og gagnkvæmri virðingu allra í skólanum í samstarfi við nemendur, foreldra og starfsfólk. Efla skal félagsfærni nemenda með því að skapa þeim tækifæri til virkrar þátttöku í skólastarfi. Jákvæður skólabragur er í eðli sínu forvarnarstarf og getur dregið úr neikvæðum samskiptum, s.s. einelti og öðru ofbeldi. Meðal grundvallarréttinda nemenda er að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem bestum tökum á náminu og að kennslan nýtist þeim sem best. Því þarf að leggja áherslu á að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum skóla og góðan vinnuanda í einstökum bekkjardeildum og námshópum.“


Í Reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er fjallað um mikilvægi þess að móta og viðhalda góðum skólabrag. Góður skólabragur felst í jákvæðum samskiptum og trausti þar sem vellíðan allra aðila er höfð að leiðarljósi. Til að það takist þurfa allir að leggja sitt af mörkum og þekkja ábyrgð og skyldur ekki síður en réttindi sín. Í reglugerðinni segir:


5. gr. „… Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna. Þannig bera foreldrar einnig ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla.

Foreldrar gæta hagsmuna barna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Þeim ber að fylgjast með námsframvindu í samvinnu við þau og kennara. Foreldrar skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barna sinna, sem og í skólastarfinu almennt í samráði við umsjónarkennara og skólastjórnendur.

Foreldrum ber að greina skólanum frá þeim þáttum sem kunna að hafa áhrif á náms­framvindu, ástundun og hegðun, s.s. um vanlíðan barna sinna og áföll sem gætu haft áhrif á skólagönguna, sem og þegar breytingar verða á högum þeirra og aðstæðum. …“

6. gr. ,,Starfsfólk grunnskóla, nemendur og foreldrar skulu í sameiningu leggja áherslu á að við­halda góðum starfsanda í skólanum og jákvæðum skólabrag.“

Uppeldisstefna Kópavogsskóla er ,,Uppeldi til ábyrgðar“ og með hana að leiðarljósi er til ítarlegur bæklingur (Umgengisreglur og skýr mörk) þar sem er farið yfir leiðir til að skapa jákvæðan skólabrag.

Stuðningsúrræði

Nú er að mesti lokið við að skipuleggja öll stuðnings- og sérúrræði fyrir einstaka nemendur og hópa. Sérúrræðum er skipt í sérkennslu fyrir einstaka nemendur, stuðningskennslu fyrir einstaka nemendur og hópa og aðstoð stuðningsfulltrúa við nemendur bæði í kennslustundum og í frímínútum. Gengið er frá einstaklingsnámskrám fyrir þá nemendur sem þurfa verulegan stuðning og það er alltaf gert í samráði við foreldra viðkomandi barna. Börn af erlendum uppruna fá aðstoð ef þau hafa búið skemur en þrjú ár á Íslandi. Ef þau hafa búið lengur en þrjú ár og þurfa stuðning áfram er hann veittur af sérkennara. Ef spurningar vakna varðandi stuðning fyrir einstaka nemendur er foreldrum bent á að hafa fyrst samband við umsjónarkennara sem þá ræðir við deildarstjóra sérúrræða. Þar er lagt mat á stöðu viðkomandi barns og ákveðið hvað gert verður.