Janúar í Hraunvallaskóla

Vinátta - Samvinna - Ábyrgð

Gleðilegt ár kæru foreldrar/forsjáraðilar

Mikið er nú gaman að allt sé að fara af stað aftur eftir dásamlegt jólafrí. Við byrjum með trompi eins og okkar er von og vísa. Búið er að endurskipuleggja skólastarfið í þágu almannavarna eins og mögulegt er. Við ætlum að halda áfram að framfylgja lögum og reglum í sameiningu og er ykkar þáttur afar mikilvægur. Hér eru ákveðnar reglur og viðmið sem við ætlum að vinna eftir:


Almennar sóttvarnir:


 • Þvoum okkur um hendur og sprittum hendur reglulega.
 • Þrífum og sótthreinsum sameiginlega snertifleti í okkar nærumhverfi.
 • Halda skal tveggja metra bili milli starfsmanna ef það er ekki hægt þá er grímuskylda.
 • Ekki eru nálægðarmörk milli starfsfólks og nemenda, kennarar þó hvattir til grímunotkunar.
 • 20 starfsmenn mega vera saman í rými.
 • 50 nemendur saman í rými.
 • Nemendur og starfsmenn geta farið á milli rýma.
 • Sameiginlegir fletir í okkar nærumhverfi hreinsaðir reglulega.


Matarmál:


 • Hafragrautur verður að morgni fyrir nemendur skólans í matsalnum.
 • Ávaxtaáskrift verður áfram óbreytt fyrir nemendur.
 • Ekki verður boðið upp á heitan mat í hádeginu fyrir nemendur. Nemendur þurfa því að koma með nesti í skólann, bæði að morgni (þeir sem ekki eru í ávaxtaáskrift) og í hádeginu. Því miður verður ekki hægt að komast í örbylgjuofn, samlokugrill eða fá heitt vatn í núðlur.
 • Síðdegishressing verður með óbreyttu sniði (frístund og aðrir sem eru skráðir í síðdegishressingu).
 • Við mælum með því að hver nemandi komi með vatnsbrúsa í skólann til afnota.


Nemendur í 1.-7. bekk borða morgunnesti og hádegisnesti á sínu heimasvæði. Unglingarnir geta annaðhvort borðað nestið (bæði að morgni og í hádegi) sitt í matsalnum eða farið heim að borða í hádeginu. Í matsalnum er ekki aðgangur að örbylgjuofni, samlokugrilli eða vatni í núðlur.


Almennar reglur:


 • Í frístund geta verið 50 börn saman í rými og er starfsemin skipulögð út frá fjöldatakmörkunum og almennum sóttvarnaaðgerðum.
 • Opið er í félagsmiðstöð fyrir unglinga úr öðrum hverfum eins og verið hefur og er skipulag eftir fjöldatakmörkum og almennum sóttvarnaraðgerðum.
 • Starfsfólk mun lágmarka ferðir um skólann eins og hægt er.
 • Engar vettvangsferðir verða farnar meðal nemenda. Einu vettvangsferðirnar sem heimilt er að fara í eru gönguferðir í nærumhverfi skólans.
 • Enginn utanaðkomandi má koma inn í skólann án sérstaks leyfis.
 • Allir sem koma inn í skólann skulu bera andlitsgrímu.


Við höldum áfram að gera þetta saman, við kunnum það og gerum það vel.

Við erum öll Almannavarnir!

Smit, sóttkví og smitgát

Okkur langar til að minna á skráningar ef um smit, sóttkví eða smitgát er að ræða. Það er mjög mikilvægt að við höldum utan um skráningar, bæði vegna samneytis og líka vegna ástundunarreglna þar sem við tökum tillit til Covid-19 þar. Endilega takið símtal á skólann og mun Gerða ritari taka vel á móti ykkur.

Við viljum líka biðja foreldra/forsjáraðila að senda ekki nemendur í skólann með einkenni. Við verðum að vera ströng með þetta eins og staðan er núna. Við vitum að allir eru að gera sitt besta í sóttvörnum og því að taka tillit til annarra.

Takk fyrir tillitsemina og að vera með okkur í liði.

Frístundabíllinn

Okkur langar til að biðla til þeirra sem eru að nota Frístundabílinn að yfirfara skráninguna sína og laga eða yfirfara ef það eru einhverjar breytingar. Það er svo mikilvægt að þetta sé rétt svo börnin komist á sínar æfingar glaðir og kátir.


Bíllinn byrjar að ganga í dag 5. janúar.

Upplýsingar frá deildarstjóra almannavarna vegna bólusetninga barna í 1.-6. bekk

Ákveðið hefur verið að bólusetningar barna í 1.-6. bekk fari fram í skólahúsnæði grunnskólanna. Lagt er upp með að bólusetja fimmtudaginn 13. janúar í Hraunvallaskóla.


Nánari upplýsingar verða sendar á viðkomandi árganga þegar skipulagið hefur verið klárað.

Námsmat í janúar

Kennarar meta nemendur út frá hæfniviðmiðum skólanámskrár í öllum námsgreinum. Þegar kennarar hafa lokið við að meta þau hæfniviðmið sem liggja til grundvallar á haustönn gefa þeir samantektareinkunn í hverri námsgrein sem færist á vitnisburðarblað nemenda.

Í mið- og unglingadeild fá nemendur einkunnir á kvarðanum A-D og í yngri deild er metið með fimm táknum. Þriðjudaginn 25. janúar verður opnað fyrir hæfnikortið í Mentor og geta foreldrar/forsjáraðilar þá skoðað námsmatið saman með sínu barni fyrir samtalsdaginn.


Nemendur fá síðan vitnisburðinn með sér heim föstudaginn 28. janúar.


Hér undir er PDF skjal með skilgreiningum á bókstöfum og táknum sem gott er fyrir ykkur að skoða. Munum að skoða námsmatið út frá hverjum og einum einstakling og hans framvindu. Hæfnikortið segir okkur svo margt þannig að við hvetjum ykkur öll til þess að skoða það mjög vel með ykkar barni.

Lýðræðisdagur 21. janúar

Flestir kannast við Þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru um aldarmótin síðustu. Þetta voru átta markmið sem saman stuðluðu að betri heimi fyrir alla. Árið 2015 viku þúsaldarmarkmiðin fyrir Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Nýju markmiðin eru fleiri en þau fyrri og taka á vandamálum sem eiga sér stað um heim allan, í hátekjulöndum sem og í lág- og millitekjulöndum.

Heimsmarkmiðin eru flokkur markmiða og undirmarkmiða sem taka til alls heimsins og ber ríkjum að ná þeim innan fimmtán ára eða fyrir 2030. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa innleitt nýju markmiðin 17, og 169 undirmarkmið þeirra, að einhverju leiti. Ísland er þar meðtalið. Að innleiða kennsluefni um markmiðin gefur nemendum sýn á þetta ferli og aukinn skilning á alþjóðamálum.

Við hvetjum ykkur til þess að skoða heimasíðu Sameinuðu þjóðanna: https://www.un.is/.


Við í Hraunvallaskóla stefnum að því að halda "Lýðræðisdag" 21. janúar og er markmiðið að nemendur þjálfist í gagnrýnni hugsun og víkki sjóndeildarhringinn í vinnu við hin ýmsu verkefni. Nánari útfærsla á verkefnum verðum í hverjum árgangi fyrir sig og ætlum við að hvetja alla til að segja frá því sem þeir eru að gera.

Samtalsdagur 1. febrúar

Samtalsdagur hér í skólanum er þriðjudaginn 1. febrúar. Þetta eru mikilvæg samtöl kennara, foreldris/forsjáraðila og barns. Í þessu samtali er farið yfir hæfnikort nemanda, frammistöðu og líðan með foreldri/forsjáraðila og barni.

Skráning í samtölin opnar þriðjudaginn 25. jan. kl. 08:00. Opnunartíminn er til kl. 23:59 fimmtudaginn 27. jan. Þeir sem ekki skrá sig fyrir þann tíma fá sendan fyrirfram ákveðin tíma til sín frá umsjónarkennara föstudaginn 28. jan.

Jólahurðaskreytingakeppnin

Okkur langar til að sýna ykkur fleiri myndir af geggjuðum jólahurðum sem voru í keppninni í desember. Þetta var svo skemmtilegt og við munum án efa endurtaka keppnina að ári. Úrslitin voru sett á heimasíðuna og myndir af vinningshurðunum eru þar.

Tómstundamiðstöð skólans

Hér er dagskrá Hraunsels og Mosans fyrir JANÚAR. Endilega hvetjið nemendur til að taka þátt, þetta er svo skemmtilegt.