Fréttabréf Grænna skrefa

Fræðsla, nýjustu fréttir, viðbætur á heimasíðuna og fleira.

Hvað er að frétta?

Nú er haustið að koma með sínum fallegu haustlitum og hið árlega átak Plastlaus september. Það er sér grein um það hér neðar. Annar árlegur viðburður í september er Samgönguvika og er einnig smá umfjöllun um hana hér í fréttabréfinu. Í byrjun október verður svo græn sýning sem leggur áherslu á umhverfismál og lýðheilsumál og Reykjavíkurborg verður með bás þar. Meira um hana í næsta fréttabréfi. Á heimasíðu Grænna skrefa og á Workplace eru komin nokkur ný upplýsingaspjöld eins og eitt dæmið hér fyrir neðan.

---------------------- ------------------- -------------------- ------------------- ------------------- --------------------

Nýir þátttakendur í Grænu skrefunum:

Virknihús, Borgartúni 6


Frá síðasta fréttabréfi hafa eftirfarandi vinnustaðir fengið viðurkenningu:


Langholtsskóli - skref 1

Fjölskyldumiðstöðin Gerðubergi og TINNA - skref 1

Sjóminjasafnið - Borgarsögusafn Reykjavíkur - skref 1

Viðey - Borgarsögusafn Reykjavíkur - skref 1

Iðjuberg, dagþjálfun fyrir fatlað fólk - skref 1

Garðyrkja, Verkbækistöð 2 - skref 2

Samgönguvikan 16. - 23. september

Evrópsk samgönguvika er árleg vitundarvakning um vistvænar samgöngur þar sem áhersla er lögð á að við nýtum okkur ýmist virkan ferðamáta eða almenningssamgöngur til að draga úr bílaumferð.

Í ár verða nokkur stæði í bílastæðahúsinu Stjörnutorg sérstaklega útbúin fyrir reiðhjól, um að gera að nýta sér það. Svo verður stóri hjóladagurinn laugardaginn 17. september, þar sem hjólað verður úr öllum nágrannabæjarfélögunum á lokaáfangastaðinn sem verður við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal. Þar verður slönguskiptikeppni og nýr stígur vígður. Umferðaþing Samgöngustofu verður svo haldið í lok Samgönguviku, 23. september, þar sem umræðuefnið verður "Virkar samgöngur - betri hreyfing". https://www.samgongustofa.is/umferdarthing/


Við hvetjum alla þátttakendur í Grænu skrefunum til þess að taka þátt í Samgönguviku með því að leggja áherslu á vistvænan ferðamáta innan síns vinnustaðar. Notið hvatningu, stigagjöf, verðlaun, leiðbeiningar, reynslusögur eða annað til að hafa áhrif á starfsfólk.

Þið getið líka gert þetta:

- Kynna vel samgöngusamninga fyrir ykkar starfsfólki

- Hvetja alla til að taka þátt í Samgönguviku

- Þeir sem eiga rafhjól geta komið á þeim til vinnu og leyft öðrum að prófa, taka einn hring. Kynna þessa frábæru ferðamáta fyrir öllum.

- Búa til facebook færslur sem kynna fyrir gestum hvað vinnustaðurinn er að gera í Grænu skrefunum. Benda á hvaða strætóleiðir stoppa hjá vinnustaðnum, svo að gestir geti komið með vistvænum hætti.


Takið einnig þátt í myndasamkeppni á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #samgonguvika2022

Dagur íslenskrar náttúru 16. september

Markmiðið með degi íslenskrar náttúru er að beina sjónum að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum.

"Náttúran er alls staðar; land, loft, vatn, haf, lífverur. Í byggð hefur náttúrunni verið umbreytt, hún manngerð og mótuð að þörfum manna og smekk en víðast er stutt í tiltölulega lítt röskuð svæði. Hér sem annars staðar er því best að byrja í nánasta umhverfi, vinna heima með heiminn í huga." (Sigrún Helgadóttir, Námsgagnastofnun 2011)


Í Grænu skrefunum gerum við nákvæmlega þetta sem Sigrún nefnir, við byrjum náttúruverndina í okkar nánasta umhverfi en höfum heiminn í huga. Við erum að draga úr álagi á lífríkið með því að nota umhverfisvæn hreinsiefni og minnka pappírsnotkun. Við drögum úr orkunotkun og við reynum að draga úr mengun með því að nýta okkur vistvæna ferðamáta til og frá vinnu.

Næsti tengiliðafundur

Fundir fyrir tengiliði grænna skrefa eru haldnir reglulega til þess að deila reynslusögum, hafa umræður og til að þið getið spurt og fengið ráðleggingar.

Ekki er um eiginlegan fyrirlestur að ræða en þetta er góður staður til að ræða saman um grænu skrefin og aðgerðirnar.


Næsti tengiliðafundur verður á TEAMS 4. október kl. 15.00. Vinsamlegast sendið póst á graenskref@reykjavik.is til þess að skrá ykkur á fundinn.