Fréttabréf Naustaskóla

3.tbl. 11.árg 2020 mars

Kæra skólasamfélag

Kæra skólasamfélag

Eins og sjá má á í fréttabréfinu er nóg um að vera hjá okkur í skólanum í mars. Stóra upplestrarkeppnin er 4. mars þar sem tveir fulltrúar Naustaskóla keppa við aðra nemendur í grunnskólum Akureyrar. Skólahreystimótið er einnig 4. mars og við stefnum að útivistardegi í Hlíðarfjalli 17. mars. Einnig bjóðum við foreldrum að að koma í stutt spjall við stjórnendur nokkra morgna á næstunni og eru þeir dagar auglýstir hér í fréttabréfinu. Framundan eru síðan þrotlausar æfingar fyrir árshátíðina sem er í byrjun apríl. Snið hátíðarinnar verður svipað og undanfarið og stefnt er að því að allir nemendur séu virkir þátttakendur. Skipulag sýninganna verður nánar auglýst þegar nær dregur með bréfi til foreldra og á heimasíðu skólans. Úr skólanum er annars allt gott að frétta og skólastarfið er í ágætum takti.

Við sendum bestu kveðjur úr skólanum

Bryndís Björnsdóttir, skólastjóri

Á döfinni í Mars

4. mars - Stóra upplestra keppnin í Menntaskólanum á Akureyri

4. mars - Skólahreysti í íþróttahöllinni

10. mars - Samræmd próf 9. bekkur íslenska

11. mars - Samræmd próf 9. bekkur stærðfræði

12. mars - Samræmd próf 9. bekkur enska

13. mars - Smiðjuskil 4. - 7. bekkur

17. mars - Útivistardagur í Hlíðarfjalli

2.-3. apríl - Árshátíð

Nánari skipulag kemur tveim vikum fyrir árshátíð.

Skíðadagurinn 17. mars

Áformaður útivistardagur í Hlíðarfjalli 17. mars 2020


Þriðjudaginn 17. mars er áformaður útivistardagur í Naustaskóla (ef veður leyfir) þar sem okkur býðst að fara í Hlíðarfjall. Þeim nemendum sem ekki geta farið í fjallið af heilsufars- eða öðrum mjög brýnum ástæðum verður boðið upp á afþreyingu í skólanum.


Nemendur í 4.-10. bekk geta fengið lánaðan búnað endurgjaldslaust (láta vita síðasta lagi á föstudaginn 13. mars). Nemendur í 1.-3. bekk geta því miður ekki fengið lánaðan búnað en er velkomið að hafa með sinn eigin búnað eða snjóþotur og sleða. Unnið er að því að kanna þörf fyrir búnað fyrir nemendur og þurfum við að ljúka við þá skráningu á mánudaginn. Hægt verður að fara á svigskíði, bretti, gönguskíði eða jafnvel fara í gönguferð.


Við komuna í fjallið fá nemendur lyftumiða sem gilda allan daginn. Nemendur í 5.-10. bekk geta notað miðann eftir hádegi en þurfa þá að koma með vasakort til að færa miðann yfir á. Þeir sem ekki eiga vasakort geta keypt slíkt fyrir 1.000 kr. ef þeir vilja halda áfram að skíða eftir hádegi. Athugið þó að skila þarf inn öllum lánsbúnaði um hádegi, þegar rútur á vegum skólans fara heim. Ef nemendur óska eftir að verða eftir í fjallinu þegar dagskrá lýkur þurfa foreldrar að hafa óskað eftir því við umsjónarkennara eða ritara skólans með símtali, í tölvupósti eða á viðtalsdögunum. Athugið að nemendur eru á eigin vegum eftir að rútur skólans eru farnar.

Þegar nemendur koma til baka í skólann fá þeir hádegisverð, yngstu nemendurnir fara í eina kennslustund en fara að því búnu heim (eða í Frístund ef þeir eru skráðir þar). Áætlaða heimferðartíma má sjá hér á eftir:


Tímasetningar:

1.-3. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 9:00

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 11:20

- Skóladegi lýkur kl. 13:00


4.-7. bekkur: Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 8:40

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:00

- Skóladegi lýkur kl. 13:00


8.-10. bekkur Mæting í skóla kl. 8:10

- Brottför frá skóla kl. 8:25

- Heimferð úr Hlíðarfjalli kl. 12:20

- Skóladegi lýkur ca. kl. 13:00


Útbúnaður:

  • Skíði, bretti, snjóþotur, þoturassar, svartir plastpokar og sleðar eru leyfðir til fararinnar.
  • Hjálmar eru nauðsynlegir! (Bent er á að hægt er að nota reiðhjólahjálma)
  • Mikilvægt er að nemendur séu vel klæddir og í vel merktum fatnaði.
  • Ekki gleyma snjóbuxunum, vettlingunum og húfunni.  • Nesti: nemendur komi sjálfir með hollt og gott nesti. Sjoppa er ekki opin.

Skóladagatal 2020-2021

Nú er skóladagatal næsta árs að byrja að taka á sig mynd. Ljóst er að skóli verður settur þann 24. ágúst og haust/vetrarfrí verða væntanlega 22– 23. október og 15. -17. febrúar. Gott að vita fyrir þá sem vilja skipuleggja sig lengra fram í tímann.

Innritun fyrir næsta ár

Þeir sem enn eiga eftir að innrita börn í 1. bekk fyrir næsta vetur, eða hyggja á skólaskipti fyrir börn sín þurfa að drífa í skráningum. Það er afar mikilvægt fyrir skóla bæjarins við skipulagningu næsta skólaárs að nemendatölur séu eins áreiðanlegar og framast er kostur. Skrá skal á heimasíðu skóladeildar www.skoladeild.akureyri.is

Sköpun bernskunnar 7. mars

Laugardaginn 7. mars kl. 15 verður samsýningin Sköpun bernskunnar 2020 opnuð í Listasafninu á Akureyri.

Þetta er sjöunda sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp sem liður í safnfræðslunni, með það markmið að gera sýnilegt, og örva, skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára.

Þátttakendur hverju sinni eru börn og starfandi myndlistarmenn, oftast einn karl og ein kona. Þátttakendurnir vinna verk sem falla að þema sýningarinnar, sem að þessu sinni er hús, heimili, skjól, með áherslu á hamfarahlýnun af mannavöldum og áhrif hennar á búsetuskilyrði. Einnig verða til sýnis líkön af íslenskum neyðarskýlum sem kanadísku listamennirnir Natalie Lavoie og Steve Nicoll bjuggu til og sýndu, þegar þau dvöldu í gestavinnustofu Gilfélagsins í nóvember 2018.

Í ár koma fimm ára leikskólabörn, þrjátíu og fjögur talsins í tveimur hópum, á Listasafnið á Akureyri og vinna myndverk undir leiðsögn tveggja starfandi myndlistarkvenna, Jonnu - Jónborgar Sigurðardóttur og Gunnhildar Helgadóttur, en sú síðarnefnda er annar tveggja myndlistarmanna sem eiga verk á sýningunni. Aðrir þátttakendur eru Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður, Brekkuskóli, Lundarskóli og Naustaskóli ásamt leikskólanum Hólmasól. Nemendur í 4. - 10. bekk í Naustaskóla eiga þónokkur verk á þessari sýningu :)

COVID-19 veiran

Þar sem búið er að staðfesta COVID-19 smit á Íslandi viljum við benda á viðbragðsáætlun Naustaskóla við heimsfaraldri en hana má einnig finna á heimasíðu skólans undir Naustaskóli> Stuðningur – heilsugæsla.

Þar sem þessar fréttir geta valdið ótta og kvíða hjá börnum viljum við minna á að ræða þessi mál af yfirvegun við þau. Við munum halda okkar striki og reiknum með óbreyttu skólahaldi nema að yfirvöld mælist til um annað.

https://www.visir.is/g/20207859d/svona-a-ad-bera-sig-ad-thegar-raett-er-vid-born-um-koronu-veiruna

Hægt er að fylgjast með gangi mála á vef Almannavarna https://www.almannavarnir.is/ og landlæknis https://www.landlaeknir.is/koronaveira/

Morgunkaffi með stjórnendum

Morgunkaffi með stjórnendum verður um miðjan mars. Það þýðir að kl. 8:10 - 8:50 á ákveðnum dögum verður heitt á könnunni á kaffistofu skólans og þar verða stjórnendur til viðtals fyrir foreldra nemenda í ákveðnum námshópum. Þarna er um að ræða frekar óformlegt spjall um skólastarfiið en um leið er þetta vettvangur til að fá fram sjónarmið foreldra um það sem vel gengur og það sem betur má fara. Þetta ætti því að vera gott tækifæri fyrir foreldra til að fá upplýsingar, skiptast á skoðunum og velta fyrir sér starfinu í skólanum okkar. Dagsetningar eru hér fyrir neðan. Við vonumst eftir að sjá sem flesta í notalegu morgunkaffi.
  • Fimmtudagur 19. mars. 1. bekkur /spjall við stjórnendur
  • Föstudagur 20. mars. 2.- 3. bekkur /spjall við stjórnendur
  • Mánudagur 23. mars 4.- 5. bekkur/ spjall við stjórnendur
  • Þriðjudagur 24. mars. 6. -7. bekkur/spjall við stjórnendur
  • Miðvikudagur 25. mars. 8. -9. 10. bekkur /spjall við stjórnerndur

Big picture