Fréttabréf Grenivíkurskóla

4. tbl. 3. árg. - apríl 2022

Kæra skólasamfélag

Fréttabréf aprílmánaðar er seint á ferðinni, en undirbúningur og framkvæmd Vorskemmtunar tók mest allan tíma nemenda og starfsfólks síðustu dagana og vikurnar fyrir páskafrí. Kærar þakkir fyrir frábæra mætingu á sýningarnar, sem að okkar mati heppnuðust prýðilega. Vonandi höfðuð þið gaman af og áttuð góða stund hjá okkur, það var frábært að geta tekið á móti gestum á Vorskemmtun í fyrsta sinn síðan 2019!


Marsmánuður var annars býsna strembinn að mörgu leyti. Mánuðurinn hófst á vetrarfríi þar sem nemendur og starfsfólk voru rétt um það bil að stíga upp úr miklu Covid-fári, og honum lauk með miklum flensufaraldri, en þegar mest lét var 31 nemandi af 50 fjarverandi vegna veikinda. Í mánuðinum varð einnig alvarlegt slys í sveitarfélaginu sem snerti marga. Hugur okkar er hjá þeim slösuðu og aðstandendum þeirra og sendum við hlýja strauma til allra þeirra sem eiga um sárt að binda.


Páskafrí er annars hafið hjá nemendum og starfsfólki eftir mikla törn í tengslum við Vorskemmtun. Skóli hefst aftur hjá nemendum að loknu páskafríi miðvikudaginn 20. apríl. Ég vona að þið eigið góðar samverustundir yfir páskana og að nemendur og starfsfólk komi endurnært til baka, tilbúið í síðustu lotuna á þessu skólaári. Gleðilega páska!


Með kveðju úr skólanum,

Þorgeir Rúnar Finnsson

skólastjóri Grenivíkurskóla

Skólabúðirnar að Reykjum

Dagana 7.-11. mars sl. dvöldu nemendur í 7. og 8. bekk í Skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði ásamt nemendum úr nokkrum öðrum skólum. Ferðin tókst með mikilli prýði og höfðu nemendur bæði gagn og gaman af. Þá voru nemendur til mikillar fyrirmyndar hvað varðar hegðun og umgengni og skóla sínum og samfélagi almennt til mikils sóma.


Inga Rakel og Sigríður Diljá fylgdu hópnum og útbjuggu þetta skemmtilega myndband úr ferðinni.

Heilsueflandi skóli

Dagatal Velvirk ber að þessu sinni yfirskriftina Aktíf í apríl. Á dagatalinu má finna ýmsar tillögur sem eru í anda þess sem rannsóknir hafa sýnt að geti hjálpað fólki að lifa hamingjuríkara lífi svo sem að gefa af sér, tengjast öðrum, finna tilgang, leika sér og njóta augnabliksins.


Smellið hér til að sjá útprentanlegt pdf-skjal með dagatalinu.

Grænfáninn

Grænfánaverkefnið á Íslandi fagnar 20 ára afmæli á þessu skólaári og í tilefni þess hefur Landvernd útbúið mánaðarlega afmælispakka sem samanstanda af fræðsluefni og verkefni sem tileinkað er ákveðnu viðfangsefni. Við munum nota þetta efni hér í skólanum og leyfum því einnig að fylgja með í fréttabréfunum okkar svo áhugasamir geti kynnt sér málið.


Afmælispakki apríl fjallar um hnattrænt jafnrétti og honum fylgja fróðlegar upplýsingar og skemmtileg verkefni.


Smellið hér til að opna afmælispakkann

Á döfinni í apríl

 • 6. apríl: Vorskemmtun - fyrri sýning
 • 7. apríl: Vorskemmtun - síðari sýning
 • 8. apríl: Síðasti kennsludagur fyrir páskafrí
 • 9.-18. apríl: Páskafrí
 • 10. apríl: Pálmasunnudagur
 • 14. apríl: Skírdagur
 • 15. apríl: Föstudagurinn langi
 • 17. apríl: Páskadagur
 • 18. apríl: Annar í páskum
 • 19. apríl: Starfsdagur - frí hjá nemendum
 • 20. apríl: Nemendur mæta í skólann að loknu páskafríi
 • 21. apríl: Sumardagurinn fyrsti - frí hjá nemendum
 • 25. apríl: Samskóladagur fyrir 5.-7. bekk í Grenivíkurskóla
 • 27. apríl: Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk
 • 28. apríl: Samskóladagur fyrir 8.-10. bekk í Þelamerkurskóla

Grenivíkurskóli

Útgefandi: Grenivíkurskóli

Ábyrgðarmaður: Skólastjóri Grenivíkurskóla